Hvergiland / Nowhereland
Hvergiland / Nowhereland
Text
D-16 Hvergiland
Áhorfandinn þarf að sýna varkárni. Hann stígur varlega til jarðar, fer hljóðlega. Yfir myndheimi Katrínar Elvarsdóttur ríkir þögn. Þó ekki grafarþögn. Ef lagt er við hlustir má heyra örlítið vindgnauð, þyt í laufi og brak í hörðu plasti sem bakast í sólinni. Skyndilega skynjum við nærveru einhvers sem kemur aftan að okkur. Heyrum fótatak í grasinu, trjágreinar sem bresta. Er þetta maður, kona, … eða jafnvel barn.
Það er eitthvað óhugnanlegt við kyrrðina í ljósmyndum Katrínar, líkt og augnablikið sem hún nær að fanga sé augnablikið sem við ríghöldum í áður en ósköpin dynja yfir, veröldin heldur í sér andanum og bíður eftir hinu óvænta.
Í kyrrðinni býr fegurð og í kyrrðinni býr háski.