Áhorfandinn þarf að sýna varkárni. Hann stígur varlega til jarðar, fer hljóðlega. Yfir myndheimi Katrínar Elvarsdóttur ríkir þögn. Þó ekki grafarþögn. Ef lagt er við hlustir má heyra örlítið vindgnauð, þyt í laufi og brak í hörðu plasti sem bakast í sólinni. Skyndilega skynjum við nærveru einhvers sem kemur aftan að okkur. Heyrum fótatak í grasinu, trjágreinar sem bresta. Er þetta maður, kona, … eða jafnvel barn.

Það er eitthvað óhugnanlegt við kyrrðina í ljósmyndum Katrínar, líkt og augnablikið sem hún nær að fanga sé augnablikið sem við ríghöldum í áður en ósköpin dynja yfir, veröldin heldur í sér andanum og bíður eftir hinu óvænta.

Í kyrrðinni býr fegurð og í kyrrðinni býr háski.

Katrín Elvarsdóttir hefur á undanförnum árum leitt áhorfendur inn í heim þar sem skáldskapur og veruleiki renna saman. Hún beitir ljósmyndinni til að skapa ímyndaðan heim sem sprottinn er úr veruleikanum sjálfum og dregur þannig fram framandleika umhverfis sem alla jafna er álitið hversdagslegt.

Katrín Elvarsdóttir lauk B.F.A. gráðu frá Art Institute of Boston árið 1993 og hefur síðan þá sýnt víða, bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og á Íslandi. Með sýningunni Hvergiland býður Katrín okkur að stíga inn í veruleika sem orðin er til í beinu framhaldi af öðrum sýningum hennar, s.s. Sporlaust, Af þessum heimi og Margsögu. Líkt og með þeim sýningum býr Katrín hér til veruleika sem áhorfandinn á þátt í að gefa innihald. Við erum stödd í heimi sem sprottinn er úr raunveruleikanum sjálfum, heimi sem er hvergi til en hefur engu að síður orðið til úr áþreifanlegu efni. Við erum stödd í verueika sem verður til þegar ímyndunaraflið mætir því sem augað nemur.

Stígið aðeins varlega til jarðar.