Horfið sumar
Um verk Katrínar Elvarsdóttur
Að vera Íslendingur er sennilega eilíf bið. Að bíða vorkomu, bíða sumars, og eilíf bjartsýni, þrátt fyrir frera jarðar, svellabungur sem virðast eins og vaxnar djúpt úr iðrum jarðar, svo fast að tilhugsunin um líf á jökulbungnu bæjarhlaði virðist jaðra við firru, ef ekki draumóra af því tagi sem mætti kalla rómantík og ævintýralegt hugmyndaflug.
Fyrir þann sem bíður með sumarþyrsta þrá í brjósti, horfir yfir haf og hauður í örvæntingarfullri von um fyrstu merki lífs á kalinni jörð, í kyrrlátum skógi, þögnuðu sumri. Fyrir þann sem leitar ummerkja um líf, um sumar sem ætlar aldrei að koma, þegar það síðan kemur, er það svo hljóðlega að það fer næstum framhjá, eins og ilmur af sumri í nánd, sem er horfinn um leið og eitt strá er slitið upp og tuggið annars hugar í dvínandi von þess sem leitar og bíður þögulla ummerkja yls og lífs.
Sumarkoma sem er horfin um leið.
Ummerkin eru þó greinanleg. Litbrigði jarðarinnar, birtan síbreytileg og allt hitt sem leggst aftur í dvala, sölnar og deyr. Dvalarbústaðirnir, ummerkin eru mennskan sjálf.
Horfið sumar berum við innra með okkur og framköllum myndir þaðan, eins og sólarkast yfir nýslegið túnið síðsumars. Eins og rauðleitan gufureyk sem liðast upp úr lækjarsprænu í grænum skógarjaðri.
Horfin sumur lífsins eins og allt sem aldrei varð annað en fyrirheit. Og við drekkum í okkur hægláta haustkomu, enn eitt sinn.
Kyrrð, angurværð yfir jörð.
Í fyrsta sinn sem ég steig inn í vinnustofu Katrínar Elvarsdóttur fyrir þremur árum fannst mér það vera eins og að stíga inn í bókmenntaverk. Verkin hennar segja sögu sem þó er ósögð. Eins og að stíga inn í frásögn, umhverfi sem er kunnuglegt en jafnframt framandi, e.t.v. vegna þess hve kunnuglegt viðfangsefni ljósmynda hennar eru.
Islenskt hjólhýsi á ónefndum stað í trjálundi sem er svo nafnlaus að manni kann að finnast sem maður hafi verið þar seinast í gær, þó það sé sennilega fjarri lagi.
Trjálundur, húshlið, stofugluggi, teppalögn snyrtileg og vel frágengin sem mætir tekkinnréttingu – horn.
Brot af veruleika. Ummerki um líf, búsetu í lengri eða skemmri tíma, líf, en samt fjarrænt, nánast eins og leikmynd, þó ekki.
Gluggar með pottablómum, svo innilega íslenskt að ekki væri hægt að villast á einmitt þessum húsum, gluggum og neinu öðru, neins staðar annars staðar.
Á Bíldudal? Spyr ég, nei Flateyri, svarar Katrín og við brosum báðar – auðvitað. Samt hugsa ég alltaf vestur á Bíldudal þegar ég horfi á einmitt þessa ljósmynd.
Sögur, sem þó eru ekki sagðar, en maður býr til innra með sér við að horfa á verk Katrínar.
Þennan haustdag þegar ég heimsótti vinnustofu hennar fyrst, fannst mér ég hafa upplifað verkin hennar áður, sem ég var sum að sjá í fyrsta sinn.
Tilfinningin var eins og að stíga inn í verk Gyrðis Elíassonar.
Sagan sem er hálfsögð, endar þar sem punkturinn er settur, en skilur mann eftir í lausu lofti með spurningu á vörunum og óþægilega tilfinningu um að eitthvað sé ósagt, að eitthvað búi undir, læðist aftan að manni, eins og grunur um að ekki sé allt sem sýnist. Vissara að skrúfa í skyndi fyrir allar óþægilegar og hráslagalegar hugsanir og láta ekki ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur.
Eitthvað gæti leynst handan við hornið, bak við hurðina.
Við virðum fyrir okkur gluggana með pottaplöntum og gardínum svo varla sést út, en e.t.v. eru það við sem erum grandskoðuð handan stórisa og stofublóma.
Verk Katrínar Elvarsdóttur eru ekki ljósmyndir gerðar við verk Gyrðis Elíassonar, heldur hefur andi verka hans verið fylgdarmaður, eins og veisla í farangrinum á ferðum hennar um landið.
Harpa Árnadóttir, 24.september 2013