Reykjavík, júlí 2005

Það er kaldur sumardagur í íslenskri sveit. Ég finn lykt af gömlum blúndugardínum. Rykkorn kitlar mig í nefið. Ég halla mér upp að kaldri rúðunn og fæ ofbirtu í augun. Samt er ekki sól. Þetta er kaldur sumardagur í íslenskri sveit. Þetta er ljósmynd af veruleikanum eins og ég man hann. Ég var barn. Ég var fullorðin.

Ljósmyndir Katrínar Elvarsdóttur eru ögrun við hinn línulega tíma og hið skipulagða minni. Þegar við virðum fyrir okkur hvít blóm á skógarbotni, hafflötinn sem er í senn tælandi og fráhrindandi eða skugga trjágreina á hvítum vegg er sem hið hefðbundna tímaskyn fari á flot. Löngu liðnir atburðir, augnablik sem við geymum innra með okkur, minna fyrirvaralaust á sig. Augnablikið heltekur okkur. Minningin er líkamleg. Við finnum fyrir henni með öllum líkamanum. Rifjum upp lyktina, áferðina og óljósa sýn sem birtist okkur eitt afmarkað augnablik líkt og í draumi. Þessi minning á sér ekki stað innan hins hefðbundna krónólógíska tíma. Hún er ekki hluti af endurminningum okkar.

Katrín Elvarsdóttir hefur fest óljósar endurminningar sínar á filmu og þar með gert okkur áhorfendunum mögulegt að framkalla minningar sem búið hafa um sig djúpt í undirmeðvitund okkar. Katrín deilir minningarbrotum úr lífi sínum með okkur og þau fléttast saman við okkar eigin óljósu minningar um blúndugardínur í íslenskri sveit og hlykkjóttan veg á fjarlægum slóðum.

Ljósmyndir Katrínar kalla fram tilfinningar sem skapa minningar. Tíminn er ekki tekinn með í reikninginn. Hann leysist upp og líf okkar skreppur saman. Skyldi það vera svona á dauðastundinni? Skyldu óljós minningabrot, sem við komum ekki fullkomlega fyrir okkur, en hafa okkur algjörlega á valdi sínu, brjótast fram? það er einhver drungi í ljósmyndum Katrínar. Einhver háski sem Þrátt fyrir fegurðina er við það að skella á. Hin fullkomna kyrrð felur í sér einhverja óljósa hreyfingu. Frásögn sem við getum ekki rifjað upp. Er þetta augnablik fegurðarinnar, augnablikið sem festist í minni okkar, rétt áður en áfallið dynur yfir, rétt áður en allt breytist, veruleikinn gerir vart við sig og ekkert verður eins og áður?

Góður ljósmyndari opnar leið fyrir veruleikann inn í hinn tilbúna efnislega heim sem við sífellt byggjum í kringum líf okkar. Í ljósmyndum Katrínar minnir veruleikinn á tilvist sína. Háskinn er handan við hornið, óendanleiki hafsins verður áþreifanlegur og tíminn leysist upp. Er ég barn sem leitar skjóls á skandinavískum skógarbotni? Er ég unglingur í tilboðspakkanum flug og bíll í Evrópu? Eða er ég fullorðin kona í íslenskri sveit? Ef til vill er ég þetta allt á einu og sama augnablikinu. Ef ég horfi nógu lengi á ljósmyndina, leyfi hverju smáatriði að búa um sig í mér og hrifsa mig á brott á vit löngu liðins tíma, já, þá er sem veruleikinn sjálfur geri vart við sig. Og það rifjast smám saman upp fyrir mér hver það er sem er þessi ég.

Sigrún Alba Sigurðardóttir