Fimmtíu plöntur fyrir frið

Texti : Halla Þórlaug Óskarsdóttir
I
Ljósmynd af bleiku blómi. Ramminn er þröngur og bakgrunnurinn er almennur : Blár himinn, fáein ský – við þekkjum ekki staðinn. Þetta gæti verið hvar sem er. Hvenær sem er.
Í lok maí árið 2011 gaf Íslenska-japanska félagið Reykjavíkurborg fimmtíu kirsuberjatré sem gróðursett voru í Hljómskálagarðinum. Gjöfin táknaði ævarandi vináttu og frið milli Japans og Íslands.
Kirsuberjatréð sem friðargjöf er japönsk hefð og hún er gjarnan tengd stöðum þar sem bardagar hafa verið háðir og menn fallið í stríði. Trén tákna bæði fæðingu og dauða, fegurð og ofbeldi. Í Japan eru þau meðal annars þekkt sem tákn fyrir hið stutta en litríka líf samúræjans. Bleiku blómin prýddu ennfremur flugvélar kamikaze flugmannanna í seinni heimsstyrjöldinni.
En kirsuberjatrén í Hljómskálagarðinum?
Þurfa bardagar að hafa vera háðir til að gróðursetja frið?
II
Myndin fangar augnablik í tíma sem verður ekki endurtekið.
Augnablikið verður eilíft og ófanganlegt á sama tíma.
Minningin hverfist um þetta sjónarhorn og umbreytist jafnvel.
Kirsuberjatré blómstra árlega, í afar skamman tíma í senn. Þau blómstra að vori, yfirleitt í eina til tvær vikur. Missir þú af kirsuberjatré í blóma þarftu því að bíða í fimmtíu blómlausar vikur eftir að sjá þessi viðkvæmnislegu bleiku blóm birtast á ný.
Í eitt augnablik breytast þessi tré úr því að virðast vera „ósköp venjuleg tré“ yfir í einhvers konar yfirnáttúrulegan og draumkenndan trjágróður sem minnir helst á kandífloss eða snævi þakið sumar. Vegfarendur líta upp og staldra við um stund. Hverfulleikinn rifjast upp.
Lífið er stutt, litríkt og dýrmætt. Lífið er óvænt og
lífið
er afleiðing
ákvarðanna annarra.
III
HVAR SEM ER
Það sem er tekið úr samhengi leitar að nýju samhengi. Eins og frumeind sem losnar úr sameind leitar nýrra tenginga. Eins og fólk leitar tengsla. Við þráum samhengi, við þráum að tilheyra.
Plöntur festa rætur við ákveðinn stað. Við notum líka þetta orð um okkur – við eigum okkar rætur að rekja – oftast til ákveðinna staða. Ljóst er að flytja má plöntur með rótum, hinum megin á hnöttinn – en er hægt að flytja fólk með rótum?
Utangarðs : Utan girðingar eða garðs, utan við túnið; vera utangarðs í samfélaginu : vera út undan, vera ekki fyllilega viðurkenndur í samfélaginu
Hvar ertu fædd? (Á Ísafirði eða í Kyoto?)
Að fæðast og flytja
Að alast upp og dvelja
Að passa inn
Á hverju ári vakna bleik blóm í almenningsgarði í Reykjavík, fjarri ætthögum sínum.
Í gróðurhúsi í Hveragerði vaxa bananar.
IV
HVAÐ SEM ER 
Ramminn er þröngur, plönturnar virðast risastórar, næstum óhugnanlegar. Glöggt auga sér agnarsmáa banana á milli gríðarstórra laufblaða.
Litur hlutar, eins og við skynjum hann, er í raun eini liturinn sem hluturinn dregur ekki í sig heldur varpar frá sér. Ef þú starir á hlut nógu lengi, lítur svo á hvítan vegg og blikkar nokkrum sinnum sérðu andhverfu myndarinnar. Hið dökka verður ljóst, hið ljósa dökkt, grænt verður fjólublátt og gult verður blátt og svo framvegis.
Hvernig við horfum á heiminn getur afhjúpað hver við erum, á raunsannari hátt en hvernig við sjálf berum okkur í heiminum.
Hvaða áhrif hefur það á landslagið þegar plöntur eru fluttar heimshorna á milli? En á plönturnar sjálfar? Til að rækta banana þarf að búa til sérstakar aðstæður. Kjörlendi banana er langt í burtu, í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Íslenskir bananar sjá ekki sólina fyrr en eftir uppskerutímann.
Er gróðurhúsið fangelsi eða manngerð paradís? Eiga plöntur heimili?
Hvað er fallegt? (Hvað finnst okkur fallegt?)
(megum við búa það til?)
Hvað er viðeigandi? (Hvað finnst okkur viðeigandi?)
(verður það alltaf viðeigandi?)
Hver má skjóta rótum
Hver hefur frelsi til að ferðast
hvar sem er
hvenær sem er
og hver ákveður það?
V
HVENÆR SEM ER
Hendurnar sem teygja sig í átt að blómunum eru líka afskornar. Hver á þessar hendur? Hvar eru þessar hendur?
(Þótt þetta sé ein og sama höndin hverju sinni verða þær margar, ein fyrir hvert augnablik. Þetta er ekki sama ljósmyndin, þetta er ekki sama augnablikið.)
Hendurnar teygja sig í átt að trénu, en grípa ekki um það.
Tíminn er ófrávíkjanlegur þáttur í ljósmyndun. Tími dags, tími árs, tímalengd ljósopsins, tíminn í sögunni. „Mómentið“. Í huga okkar er tíminn línuleg frásögn, saga okkar og framvinda hennar, bæði sem hópur og einstaklingar. Við eigum okkar uppruna – okkar rætur – og við stefnum inn í örlögin.
Bleik blóm kirsuberjatrésins birtast okkur í skamma stund. Blómin minna okkur á lífið og dauðleikann og kannski minna þau okkur fyrst og fremst á að sleppa tökunum og dvelja í stundinni. Er sem er, ekkert varir að eilífu.
Svona sjaldgæfur viðburður – jafnvel þó hann sé reglulegur – kallar á viðbrögð. Hvað gerirðu þegar þú verður vitni að blómgun kirsuberjatrjánna? Staldrarðu við? Tekurðu mynd? Klippirðu blóm til að þurrka og geyma?
Er hægt að fanga þetta augnablik í raun?
Sé ljósmynd sönnun, hvað sannar þá ljósmynd af skammlífu bleiku blómi?

Space-Time Continuum

English below

Katrín Elvarsdóttir birtir ómstrítt samband tíma og staðar í verkinu Space-Time Continuum. Hvernig minning okkar um stað er í senn hliðstæða og andstæða við reynsluna að koma þangað aftur. Allt er eins en þó öðruvísi. Staðurinn er sá sami og við þekkjum hvert smáatriði í umhverfinu: útlínur fjallanna, glufur í gangstéttinni, áferð styttnanna. En þessi smáatriði voru búin að gleymast. Endurkoman púslar aftur saman heildarmynd sem við þekktum og þekkjum enn.
Verkið er unnið á æskuslóðum Katrínar á Ísafirði þar sem minningar um staðinn ljá endurkomu þangað draumkenndan blæ. Möguleikar ljósmyndamiðilsins til að umbreyta myndefni sínu eru notaðir til að birta breytt landslag. Dökkir fletir eiga skipti við ljósa í negatívu ljósmyndarinnar sem umbreytir ásýnd umhverfisins og brenglar upplifun okkar af staðnum.

Brynja Sveinsdóttir


Katrín Elvarsdóttir presents a dissonant relationship between time and place in her work Space-Time Continuum: how our memory of a place is analogous to, and at the same time the converse of, the experience of returning there.  All is the same, yet different. The place is the same, and we recognize every detail of the surroundings; the contours of the mountains, cracks in the pavement, the textures of sculptures. But those details had been forgotten. Our return reconstructs a complete image that we knew, and recognize again.
The work was made in Ísafjörður in the West Fjords, where Katrín grew up, and memories of the place imbue the return with a dreamlike quality. The potential of the medium of photography to transform the subject are employed to depict an altered landscape.  Dark elements and light ones change places in a negative photographic image which transforms the character of the surroundings and distorts our perception of the place.

Brynja Sveinsdóttir

Heimþrá / Longing

Reykjavík, júlí 2005

Það er kaldur sumardagur í íslenskri sveit. Ég finn lykt af gömlum blúndugardínum. Rykkorn kitlar mig í nefið. Ég halla mér upp að kaldri rúðunn og fæ ofbirtu í augun. Samt er ekki sól. Þetta er kaldur sumardagur í íslenskri sveit. Þetta er ljósmynd af veruleikanum eins og ég man hann. Ég var barn. Ég var fullorðin.

Ljósmyndir Katrínar Elvarsdóttur eru ögrun við hinn línulega tíma og hið skipulagða minni. Þegar við virðum fyrir okkur hvít blóm á skógarbotni, hafflötinn sem er í senn tælandi og fráhrindandi eða skugga trjágreina á hvítum vegg er sem hið hefðbundna tímaskyn fari á flot. Löngu liðnir atburðir, augnablik sem við geymum innra með okkur, minna fyrirvaralaust á sig. Augnablikið heltekur okkur. Minningin er líkamleg. Við finnum fyrir henni með öllum líkamanum. Rifjum upp lyktina, áferðina og óljósa sýn sem birtist okkur eitt afmarkað augnablik líkt og í draumi. Þessi minning á sér ekki stað innan hins hefðbundna krónólógíska tíma. Hún er ekki hluti af endurminningum okkar.

Katrín Elvarsdóttir hefur fest óljósar endurminningar sínar á filmu og þar með gert okkur áhorfendunum mögulegt að framkalla minningar sem búið hafa um sig djúpt í undirmeðvitund okkar. Katrín deilir minningarbrotum úr lífi sínum með okkur og þau fléttast saman við okkar eigin óljósu minningar um blúndugardínur í íslenskri sveit og hlykkjóttan veg á fjarlægum slóðum.

Ljósmyndir Katrínar kalla fram tilfinningar sem skapa minningar. Tíminn er ekki tekinn með í reikninginn. Hann leysist upp og líf okkar skreppur saman. Skyldi það vera svona á dauðastundinni? Skyldu óljós minningabrot, sem við komum ekki fullkomlega fyrir okkur, en hafa okkur algjörlega á valdi sínu, brjótast fram? það er einhver drungi í ljósmyndum Katrínar. Einhver háski sem Þrátt fyrir fegurðina er við það að skella á. Hin fullkomna kyrrð felur í sér einhverja óljósa hreyfingu. Frásögn sem við getum ekki rifjað upp. Er þetta augnablik fegurðarinnar, augnablikið sem festist í minni okkar, rétt áður en áfallið dynur yfir, rétt áður en allt breytist, veruleikinn gerir vart við sig og ekkert verður eins og áður?

Góður ljósmyndari opnar leið fyrir veruleikann inn í hinn tilbúna efnislega heim sem við sífellt byggjum í kringum líf okkar. Í ljósmyndum Katrínar minnir veruleikinn á tilvist sína. Háskinn er handan við hornið, óendanleiki hafsins verður áþreifanlegur og tíminn leysist upp. Er ég barn sem leitar skjóls á skandinavískum skógarbotni? Er ég unglingur í tilboðspakkanum flug og bíll í Evrópu? Eða er ég fullorðin kona í íslenskri sveit? Ef til vill er ég þetta allt á einu og sama augnablikinu. Ef ég horfi nógu lengi á ljósmyndina, leyfi hverju smáatriði að búa um sig í mér og hrifsa mig á brott á vit löngu liðins tíma, já, þá er sem veruleikinn sjálfur geri vart við sig. Og það rifjast smám saman upp fyrir mér hver það er sem er þessi ég.

Sigrún Alba Sigurðardóttir

Sporlaust / Without a trace

Paris, feb. 2007

Katrín Elvarsdóttir setur hér á svið litla sögu þar sem við fylgjumst með nokkrum börnum sem virðast ein á ferð úti í skógi. «Hugmyndin kom frá málverki sem ég var með í herberginu mínu þegar ég var lítil en það var málverk af Hans og Grétu að ganga eftir skógarstíg,» segir Katrín um myndirnar sem hún hefur gefið nafnið Sporlaust.

Katrín er ekki að mynda raunveruleikann í þeirri merkingu að hún sé að taka myndir af einhverju ákveðnu fyrirbæri. Hún er ekki að taka myndir af börnum úti í skógi, jafnvel þótt börnin séu vissulega af holdi og blóði og sagan sviðsett úti í náttúrunni innan um raunveruleg tré og skógarstíga. Hún er heldur ekki að myndskreyta sögu eða setja á svið «lifandi myndir», heldur er hún að setja sig á skjön við raunveruleikann, og býr til einkaheim eða handanveröld, fremur eins og kvikmyndaleikstjóri en ljósmyndari.

Katrín nýtir sér fagurfræði kvikmyndanna, altumlykjandi, alviturt, gagnsætt sjónarhorn linsunnar til að búa til skáldskaparheim, en lætur áhorfandann um leið finna fyrir efnislegri nálægð linsunnar með því að beita áhrifamætti ljósi og skugga sem undirstrika hringsæja byggingu myndarinnar. Hvað er réttur fókus spurði breski ljósmyndarinn Julia Margaret Cameron (1815-1879), þegar hún var ásökuð um að kunna ekki á tækin þegar hún setti á svið allegórískar senur þar sem börn léku oftast aðalhlutverkin. Cameron notaði mjúka skerpu til að brjóta niður eðlislæga tímafestu ljósmyndarinnar, því hún vildi staðsetja myndir sínar í tímaleysi skáldskaparins. Þessar piktoríalísku aðferðir hefur Katrín tileinkað sér, mjúk skerpa og chiaroscuro, andstæður ljóss og skugga, mynda dulúðuga áferð og skapa draumkennt andrúmloft sem skera á öll raunveruleikatengsl áhorfandans.

Við erum á berskuslóðum, horfum á myndir sem Katrín endurgerir eftir minningu um mynd sem hún horfði á sem barn. Börnin virðast ómeðvituð um návist ljósmyndarans, þau horfa ekki í linsuna. Það er ekki verið að mynda þau sem einstaklinga, heldur eru þau nafnlausar, sporlausar skuggaverur, tvífarar, en um leið tákn fyrir börn, og skógurinn heimur utan veruleikans þar sem grænka sumarsins vekur frekar óhug handanheimsins en minningu um farsæla lautarferð. Þannig kjölfestir Katrín myndefnið jafnt í ævintýraveröld nítjándu aldarinnar sem í súrrealískum kvikmyndaheimi þeirrar tuttugustu. Myndirnar fela í sér hugboð um «óvænta atburði», um «óheimilislegar» aðstæður, svo vísað sé til hugtaks Freuds um þá fagurfræðilegu tilfinningu sem vaknar þegar hið hversdagslega vekur óhug og kvíða, eins og skordýri í lófa eða brunablettur á grasi.

Myndröðin Sporlaust minnir á það sem gerist þegar við tökum skrefið frá hlutlausri lýsingu yfir í hugræna túlkun. Katrín sýnir raunveruleika óraunveruleikans, býr til nýjar myndir sem áhorfandinn fléttir saman við sína eigin óljósu minningu um mynd á vegg eða í bók. Myndirnar kalla fram margvísandi samhengi, án þess að vísa til hins sértæka, og aðferðirnar sem Katrín notar, andrúmsloftið sem hún skapar, undirstrikar vissuna um að áhorfandinn sé staddur handan raunveruleikans.

Katrín deilir minningarbrotum sínum með áhorfandanum í póstmódernískri endurvinnslu sem tengjast þeirri upplifun sem stundum er kennd við déjà vu. Börnin virðast hvorki villt né svöng, heldur niðursokking í eigin hugarheim, draumóra bernskunnar. Myndefnið sjálft, börn í skógi, leiðir hugann að sögunni, að textanum, og textinn hringsólar að myndskreytingum ævintýrabóka bernskunnar: «Snemma í fyrramálið skulum við fara með þau inn í skóginn, þar sem hann er þéttastur. þar kveikjum við upp bál, fáum þeim sinn brauðbitann hvoru og förum síðan til vinnu okkar og skiljum þau eftir. þau rata ekki heim, og þar með erum við laus við þau…». Þannig innlimar hún sífellu myndmáls og texta í hugskot áhorfanda og rannsakar hvernig óheft flæði ólíkra miðla ; málverks, ljósmyndar, prentmyndar, kvikmyndar, og hugarheima, renna saman í farvegi ímyndunaraflsins. Aðferð sem að sjálfsögðu er ekki bundin við frásögu ljósmyndarinnar eingöngu, heldur við allar ljóðrænar og fagurfræðilegar upplifanir. Hver og einn verður síðan að rekja sig eftir sínum eigin persónulega þræði og rata þær löngu krókaleiðir sem einstaklingurinn fer til að búa sér til sína eigin sögu, sitt eigið samhengi og tengist því sem kallað hefur verið frásögulegur þáttur sjálfsins.

Eitt einkenni ljósmynda er það sem kennt hefur verið við það ástand ljósmyndarinnar að vera eftirmynd án frummyndar og á það við bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Mynd er endurgerð og endurprentuð í hið óendanlega, í mismunandi stærðum og gerðum. Myndum er varpað á vegg, þær eru prentaðar í bókum, settar í albúm eða rammaðar inn. Stærð og uppsetning myndar hefur merkingu og áhrif á hvernig áhorfandinn skilur og upplifir þær. Á þessari sýningu hefur Katrín prentað myndirnar í ólíkum stærðum í þeim tilgangi að brjóta upp hefðbundið upphengiform sem mótaðist af módernískri sjónhefð 20. aldarinnar og raðbundnum eiginleikum kvikmyndarammanns. Óregluleg stærð myndanna færir áhorfandann nær einkaheiminum, herberginu, myndaalbúminu eða ævintýrabókinni og dregur á þann hátt úr tímalausri fjarlægð myndanna.

Titillinn Sporlaust er margvísandi. Hann vísar til myndefnisin, frásögunnar um börnin á hrakningi í skóginum, en fyrst og fremst til afstöðu Katrínar til ljósmyndarinnar sem fyrirbæris. Myndir hennar eru athugun á ótryggum tengslum ljósmyndarinnar við raunveruleikann og gegnsæi hennar sem listmiðils. Gegnsæi ljósmyndarinnar skapar ákveðið óvissuástand hvað varðar upplifun áhorfandans á raunveruleika myndarinnar, um leið og þessi eiginleiki ljósmyndarinnar aðgreinir hana frá öðrum listmiðlum og setur hana á bekk með kvikmyndalistinni sem nærtækasta aðferð samtímans til myndsköpunar.

Katrín hafnar viðteknum skilningi á ljósmyndinni sem tæki til að skrá og rannsaka raunveruleikann, á þeirri útbreiddu skoðun að ljósmynd sýni « það sem hafi verið», að ljósmyndin sé spegill, spor í sandi eða skuggi í snertingu við tímann. Með titlinum afhjúpar Katrín skilning sinn og notkun á ljósmyndinni sem myndsköpunaraðferð og tjáningarleið. Myndir hennar eru hugrænar, þær eru cosa mentale, skáldskapur, staður þar sem sögur verða til, svo vísað sé til orða bandaríska listgagnrýnandinn Clément Greenberg sem sannspár taldi ljósmyndina hafa náð valdi á þeim frásagnarheimi sem málaralistin hefði yfirgefið.

[1] Grimmsævintýri. Fimmtíu úrvals-æfintyri úr safni Grimms-bræðranna með fjölda mynda eftir þýzka listmálara, Theodór Árnason íslenskaði, Reykjavík: Bókaverzlun Sigurjóns Jónssonar 1922-1926.

Paris, Feb. 2007

Katrín Elvarsdóttir creates a setting for a little story wherein we observe a group of children that seem to be wandering alone in the woods. “The idea came from a painting I had in my room when I was a little girl, it was a painting of Hansel and Gretel walking down a forest path,” Katrín says of the series she has chosen to call Without a Trace.

Katrín is not photographing reality so to speak, she is not taking photographs of any certain phenomenon. She is not taking photos of children out in the woods, even though the children certainly are of flesh and blood and the story staged in nature, amongst real trees and forest paths. She is not illustrating a story or staging “live pictures” even; she is rather positioning herself askew to reality, and creating a private, parallel world, more like a film director than a photographer.

Katrín employs film aesthetics; the ambient, omniscient, transparent angle of the lens to create a fictional world, but at the same time she lets the viewer sense the physical presence of the lens through effects of light and shadow, which emphasise the centrifugal structure of the picture.

What is correct focus? asked the British photographer, Julia Margaret Cameron (1815 – 1879) when she was criticised for lacking skills when she staged allegorical scenes in which children were often the main subject. Cameron used soft focus to break down the inherent temporality of the photograph, because she wanted to place her photographs in fictional timelessness. Katrín has adopted these pictorialistic methods; soft focus and chiaroscuro; the contrasts of light and shadow create a mysterious texture and a dreamlike atmosphere that severs the viewers’ ties to reality.

We are back in childhood, looking at images that Katrín creates from a memory of a picture that she gazed at as a child. The children seem oblivious to the photographer’s presence; they do not stare into the lens. They are not being photographed as individuals, but rather as anonymous, traceless shadows , doubles, standing in as symbols for children, and the wood for a world outside reality where the summer green evokes the eeriness of the beyond, rather than memories of a pleasant picnic. In this way Katrín ties her subject both in the fairy-tale of the nineteenth century, and the surreal cinematography of the twentieth. The photographs bear foreboding of “unexpected incidents”, of uncanny circumstances, to refer to Freud’s concept of the aesthetic feeling that awakens when the ordinary evokes apprehension and anxiety, such as an insect in the palm of the hand or a scorched patch in the grass.

The sequence Without a Trace reminds us of what happens when we step away from objective description towards subjective interpretation. Katrín shows the reality of unreality, creates new images that the viewer entwines with his/her own vague memories of a picture on a wall or in a book. The pictures suggest multiple contexts, without referring to the particular, and the methods that Katrín uses, the atmosphere she creates, emphasises the feeling of estrangement.

Katrín shares her fractions of memory with the viewer in a post-modern recycling related to the experience often called déjà vu. The children seem neither lost nor hungry, but rather captivated by their own childhood fantasies. The theme itself – children out in the woods – refers to the narrative, the text, and the text cruises around the illustrations of the fairy-tale books of childhood: “Tomorrow morning we shall take them into the woods where they are most dense. There we shall light a fire, give them each a bit of bread and then we shall go to work and leave them behind. They will not find the way home on their own and so we are rid of them … “ [1]. In this way Katrín feeds the viewers imaginary with unbridled stream of imagery and texts, and studies how different media (painting, photography, print, film and fantasy) coverge in the imagination. Of course, this method is not exclusive to the narrative of photography, but adheres to all lyrical and aesthetic experiences. Each and everyone must then find his/her way back by his/her own personal routes and travel the long and winding roads that the individual must trek to make his/her own story. and context, and has to do with what has been called the narrative aspect of the self.

One characteristic of the photograph has been said to come from the photographs condition of being a copy without an original, both figuratively speaking and in fact. A photograph is reprinted and reproduced over and over again, in different sizes and variations. Photographs are projected onto walls, printed in books, arranged into albums or framed. The size and hanging of a photograph affects the viewers understanding and experience of it. In this exhibition Katrín has printed the photographs in different formats in order to break up the grid, which was established by modernist visual standards of the 20th Century, and the sequential nature of film frames. The irregular size of the photographs brings the viewer closer to the private, the chamber, the album, and the book of fairy-tales, and thereby plays down the temporal distance of the photographs.

The title of the exhibition, Without a Trace, refers to the subject, the story of the children abandoned in the woods, but first and foremost to Katrín’s attitude towards photography as a phenomenon. Her images are a study of the fluctuating relationship between photography and reality, and its transparency as an art medium. The invisibility of the photograph creates a certain volatile condition with regard to the viewer’s experience of the photograph’s realness, at the same time this quality also distinguishes it from other art forms, aligning it with cinematography as being the most immediate, way of contemporary image making.

Katrín rejects the conventional definition of photography as a tool to document and study reality, rejects the widespread belief that the photograph shows “this has been”, that the photograph is a mirror, a trace, or a shadow touching time. With the title Katrín exposes her own understanding and use of photography as a way of creating images and as a form of expression. Her photographs are subjective, cosa mentale, fiction; they are a place where stories come to life, to quote the American art critic Clément Greenberg who rightly predicted that the photograph had conquered the narrative that painting had deserted.

Æsa Sigurjónsdóttir

Horfið sumar

Um verk Katrínar Elvarsdóttur

Að vera Íslendingur er sennilega eilíf bið. Að bíða vorkomu, bíða sumars, og eilíf bjartsýni, þrátt fyrir frera jarðar, svellabungur sem virðast eins og vaxnar djúpt úr iðrum jarðar, svo fast að tilhugsunin um líf á jökulbungnu bæjarhlaði virðist jaðra við firru, ef ekki draumóra af því tagi sem mætti kalla rómantík og ævintýralegt hugmyndaflug.

Fyrir þann sem bíður með sumarþyrsta þrá í brjósti, horfir yfir haf og hauður í örvæntingarfullri von um fyrstu merki lífs á kalinni jörð, í kyrrlátum skógi, þögnuðu sumri. Fyrir þann sem leitar ummerkja um líf, um sumar sem ætlar aldrei að koma, þegar það síðan kemur, er það svo hljóðlega að það fer næstum framhjá, eins og ilmur af sumri í nánd, sem er horfinn um leið og eitt strá er slitið upp og tuggið annars hugar í dvínandi von þess sem leitar og bíður þögulla ummerkja yls og lífs.

Sumarkoma sem er horfin um leið.

Ummerkin eru þó greinanleg. Litbrigði jarðarinnar, birtan síbreytileg og allt hitt sem leggst aftur í dvala, sölnar og deyr. Dvalarbústaðirnir, ummerkin eru mennskan sjálf.

Horfið sumar berum við innra með okkur og framköllum myndir þaðan, eins og sólarkast yfir nýslegið túnið síðsumars. Eins og rauðleitan gufureyk sem liðast upp úr lækjarsprænu í grænum skógarjaðri.

Horfin sumur lífsins eins og allt sem aldrei varð annað en fyrirheit. Og við drekkum í okkur hægláta haustkomu, enn eitt sinn.

Kyrrð, angurværð yfir jörð.

Í fyrsta sinn sem ég steig inn í vinnustofu Katrínar Elvarsdóttur fyrir þremur árum fannst mér það vera eins og að stíga inn í bókmenntaverk. Verkin hennar segja sögu sem þó er ósögð. Eins og að stíga inn í frásögn, umhverfi sem er kunnuglegt en jafnframt framandi, e.t.v. vegna þess hve kunnuglegt viðfangsefni ljósmynda hennar eru.

Islenskt hjólhýsi á ónefndum stað í trjálundi sem er svo nafnlaus að manni kann að finnast sem maður hafi verið þar seinast í gær, þó það sé sennilega fjarri lagi.

Trjálundur, húshlið, stofugluggi, teppalögn snyrtileg og vel frágengin sem mætir tekkinnréttingu – horn.

Brot af veruleika. Ummerki um líf, búsetu í lengri eða skemmri tíma, líf, en samt fjarrænt, nánast eins og leikmynd, þó ekki.

Gluggar með pottablómum, svo innilega íslenskt að ekki væri hægt að villast á einmitt þessum húsum, gluggum og neinu öðru, neins staðar annars staðar.

Á Bíldudal? Spyr ég, nei Flateyri, svarar Katrín og við brosum báðar – auðvitað. Samt hugsa ég alltaf vestur á Bíldudal þegar ég horfi á einmitt þessa ljósmynd.

Sögur, sem þó eru ekki sagðar, en maður býr til innra með sér við að horfa á verk Katrínar.

Þennan haustdag þegar ég heimsótti vinnustofu hennar fyrst, fannst mér ég hafa upplifað verkin hennar áður, sem ég var sum að sjá í fyrsta sinn.

Tilfinningin var eins og að stíga inn í verk Gyrðis Elíassonar.

Sagan sem er hálfsögð, endar þar sem punkturinn er settur, en skilur mann eftir í lausu lofti með spurningu á vörunum og óþægilega tilfinningu um að eitthvað sé ósagt, að eitthvað búi undir, læðist aftan að manni, eins og grunur um að ekki sé allt sem sýnist. Vissara að skrúfa í skyndi fyrir allar óþægilegar og hráslagalegar hugsanir og láta ekki ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur.

Eitthvað gæti leynst handan við hornið, bak við hurðina.

Við virðum fyrir okkur gluggana með pottaplöntum og gardínum svo varla sést út, en e.t.v. eru það við sem erum grandskoðuð handan stórisa og stofublóma.

Verk Katrínar Elvarsdóttur eru ekki ljósmyndir gerðar við verk Gyrðis Elíassonar, heldur hefur andi verka hans verið fylgdarmaður, eins og veisla í farangrinum á ferðum hennar um landið.

Harpa Árnadóttir, 24.september 2013

Hvergiland / Nowhereland

Áhorfandinn þarf að sýna varkárni. Hann stígur varlega til jarðar, fer hljóðlega. Yfir myndheimi Katrínar Elvarsdóttur ríkir þögn. Þó ekki grafarþögn. Ef lagt er við hlustir má heyra örlítið vindgnauð, þyt í laufi og brak í hörðu plasti sem bakast í sólinni. Skyndilega skynjum við nærveru einhvers sem kemur aftan að okkur. Heyrum fótatak í grasinu, trjágreinar sem bresta. Er þetta maður, kona, … eða jafnvel barn.

Það er eitthvað óhugnanlegt við kyrrðina í ljósmyndum Katrínar, líkt og augnablikið sem hún nær að fanga sé augnablikið sem við ríghöldum í áður en ósköpin dynja yfir, veröldin heldur í sér andanum og bíður eftir hinu óvænta.

Í kyrrðinni býr fegurð og í kyrrðinni býr háski.

Katrín Elvarsdóttir hefur á undanförnum árum leitt áhorfendur inn í heim þar sem skáldskapur og veruleiki renna saman. Hún beitir ljósmyndinni til að skapa ímyndaðan heim sem sprottinn er úr veruleikanum sjálfum og dregur þannig fram framandleika umhverfis sem alla jafna er álitið hversdagslegt.

Katrín Elvarsdóttir lauk B.F.A. gráðu frá Art Institute of Boston árið 1993 og hefur síðan þá sýnt víða, bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og á Íslandi. Með sýningunni Hvergiland býður Katrín okkur að stíga inn í veruleika sem orðin er til í beinu framhaldi af öðrum sýningum hennar, s.s. Sporlaust, Af þessum heimi og Margsögu. Líkt og með þeim sýningum býr Katrín hér til veruleika sem áhorfandinn á þátt í að gefa innihald. Við erum stödd í heimi sem sprottinn er úr raunveruleikanum sjálfum, heimi sem er hvergi til en hefur engu að síður orðið til úr áþreifanlegu efni. Við erum stödd í verueika sem verður til þegar ímyndunaraflið mætir því sem augað nemur.

Stígið aðeins varlega til jarðar.