Texti : Halla Þórlaug Óskarsdóttir
–
I
–
Ljósmynd af bleiku blómi. Ramminn er þröngur og bakgrunnurinn er almennur : Blár himinn, fáein ský – við þekkjum ekki staðinn. Þetta gæti verið hvar sem er. Hvenær sem er.
–
Í lok maí árið 2011 gaf Íslenska-japanska félagið Reykjavíkurborg fimmtíu kirsuberjatré sem gróðursett voru í Hljómskálagarðinum. Gjöfin táknaði ævarandi vináttu og frið milli Japans og Íslands.
–
Kirsuberjatréð sem friðargjöf er japönsk hefð og hún er gjarnan tengd stöðum þar sem bardagar hafa verið háðir og menn fallið í stríði. Trén tákna bæði fæðingu og dauða, fegurð og ofbeldi. Í Japan eru þau meðal annars þekkt sem tákn fyrir hið stutta en litríka líf samúræjans. Bleiku blómin prýddu ennfremur flugvélar kamikaze flugmannanna í seinni heimsstyrjöldinni.
–
En kirsuberjatrén í Hljómskálagarðinum?
Þurfa bardagar að hafa vera háðir til að gróðursetja frið?
–
II
–
Myndin fangar augnablik í tíma sem verður ekki endurtekið.
–
Augnablikið verður eilíft og ófanganlegt á sama tíma.
–
Minningin hverfist um þetta sjónarhorn og umbreytist jafnvel.
–
Kirsuberjatré blómstra árlega, í afar skamman tíma í senn. Þau blómstra að vori, yfirleitt í eina til tvær vikur. Missir þú af kirsuberjatré í blóma þarftu því að bíða í fimmtíu blómlausar vikur eftir að sjá þessi viðkvæmnislegu bleiku blóm birtast á ný.
–
Í eitt augnablik breytast þessi tré úr því að virðast vera „ósköp venjuleg tré“ yfir í einhvers konar yfirnáttúrulegan og draumkenndan trjágróður sem minnir helst á kandífloss eða snævi þakið sumar. Vegfarendur líta upp og staldra við um stund. Hverfulleikinn rifjast upp.
–
Lífið er stutt, litríkt og dýrmætt. Lífið er óvænt og
lífið
er afleiðing
ákvarðanna annarra.
–
III
–
HVAR SEM ER
–
Það sem er tekið úr samhengi leitar að nýju samhengi. Eins og frumeind sem losnar úr sameind leitar nýrra tenginga. Eins og fólk leitar tengsla. Við þráum samhengi, við þráum að tilheyra.
–
Plöntur festa rætur við ákveðinn stað. Við notum líka þetta orð um okkur – við eigum okkar rætur að rekja – oftast til ákveðinna staða. Ljóst er að flytja má plöntur með rótum, hinum megin á hnöttinn – en er hægt að flytja fólk með rótum?
–
Utangarðs : Utan girðingar eða garðs, utan við túnið; vera utangarðs í samfélaginu : vera út undan, vera ekki fyllilega viðurkenndur í samfélaginu
–
Hvar ertu fædd? (Á Ísafirði eða í Kyoto?)
Að fæðast og flytja
Að alast upp og dvelja
Að passa inn
–
Á hverju ári vakna bleik blóm í almenningsgarði í Reykjavík, fjarri ætthögum sínum.
Í gróðurhúsi í Hveragerði vaxa bananar.
–
IV
–
HVAÐ SEM ER
–
Ramminn er þröngur, plönturnar virðast risastórar, næstum óhugnanlegar. Glöggt auga sér agnarsmáa banana á milli gríðarstórra laufblaða.
–
Litur hlutar, eins og við skynjum hann, er í raun eini liturinn sem hluturinn dregur ekki í sig heldur varpar frá sér. Ef þú starir á hlut nógu lengi, lítur svo á hvítan vegg og blikkar nokkrum sinnum sérðu andhverfu myndarinnar. Hið dökka verður ljóst, hið ljósa dökkt, grænt verður fjólublátt og gult verður blátt og svo framvegis.
–
Hvernig við horfum á heiminn getur afhjúpað hver við erum, á raunsannari hátt en hvernig við sjálf berum okkur í heiminum.
–
Hvaða áhrif hefur það á landslagið þegar plöntur eru fluttar heimshorna á milli? En á plönturnar sjálfar? Til að rækta banana þarf að búa til sérstakar aðstæður. Kjörlendi banana er langt í burtu, í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Íslenskir bananar sjá ekki sólina fyrr en eftir uppskerutímann.
–
Er gróðurhúsið fangelsi eða manngerð paradís? Eiga plöntur heimili?
Hvað er fallegt? (Hvað finnst okkur fallegt?)
(megum við búa það til?)
Hvað er viðeigandi? (Hvað finnst okkur viðeigandi?)
(verður það alltaf viðeigandi?)
Hver má skjóta rótum
Hver hefur frelsi til að ferðast
hvar sem er
hvenær sem er
og hver ákveður það?
–
V
–
HVENÆR SEM ER
–
Hendurnar sem teygja sig í átt að blómunum eru líka afskornar. Hver á þessar hendur? Hvar eru þessar hendur?
–
(Þótt þetta sé ein og sama höndin hverju sinni verða þær margar, ein fyrir hvert augnablik. Þetta er ekki sama ljósmyndin, þetta er ekki sama augnablikið.)
Hendurnar teygja sig í átt að trénu, en grípa ekki um það.
–
Tíminn er ófrávíkjanlegur þáttur í ljósmyndun. Tími dags, tími árs, tímalengd ljósopsins, tíminn í sögunni. „Mómentið“. Í huga okkar er tíminn línuleg frásögn, saga okkar og framvinda hennar, bæði sem hópur og einstaklingar. Við eigum okkar uppruna – okkar rætur – og við stefnum inn í örlögin.
–
Bleik blóm kirsuberjatrésins birtast okkur í skamma stund. Blómin minna okkur á lífið og dauðleikann og kannski minna þau okkur fyrst og fremst á að sleppa tökunum og dvelja í stundinni. Er sem er, ekkert varir að eilífu.
–
Svona sjaldgæfur viðburður – jafnvel þó hann sé reglulegur – kallar á viðbrögð. Hvað gerirðu þegar þú verður vitni að blómgun kirsuberjatrjánna? Staldrarðu við? Tekurðu mynd? Klippirðu blóm til að þurrka og geyma?
–
Er hægt að fanga þetta augnablik í raun?
–
Sé ljósmynd sönnun, hvað sannar þá ljósmynd af skammlífu bleiku blómi?